Skipt um vals á Vélfag M-800/825
Hluti af reglulegu viðhaldi roðflettivéla er að skipta um roðvals (og hreinsivals ef við á), legur pakkdósir og aðra hluti sem slitna. Úti á sjó sér umsjónaraðili vélanna yfirleitt um þetta viðhald en í landvinnslu eru aðkeyptir viðgerðarmenn notaðir, oftast sérhæfðir þjónustuaðilar frá framleiðanda og/eða umboði
Ekki er hægt að skipta um roðvalsinn í M-800 vélunum nema með því að taka þær úr flökunarvélinni og vinna verkið á verkstæði
Aðalkostir M-800 vélanna eru hversu einfaldar og sterkbyggðar þær eru. Það er venjulega ekki nauðsynlegt að skipta um legur og pakkdósir í þessum vélum nema í annað hvert skipti sem skipt er um vals. Þó verður alltaf að meta hverju sinni ástand á legum/pakkdósum!
Þegar valsinn er orðinn bitlaus hættir vélin að vinna almennilega, klippir sporða og spólar á roðinu. Oft heyrist áreynsluhljóð þegar flökin renna í gegn, þau geta safnast upp undir hnífnum og stöðvað vélina/vinnslu..
Það þarf betri og beittari vals í nýveiddan fisk á frystitogara. Landvinnslur geta notað sama valsinn mun lengur.
Áætlað magn af fiski sem nýr vals endist í er ca. 2-3000 tonn (þorskur/sjóvinnsla) ef ekkert annað kemur upp á. Ufsi og ýsa eru erfiðari í roðdrætti og endingin minni. Ef ýsa td.er illa hreinsuð fyrir flökun (sandur og skeljabrot í kviðarholi) getur bitið í valsinum eyðilagst á örfáum tonnum/klukkutímum.
Hér er M-800 komin á verkstæðisborð og allt klárt í að skipta um valsinn
Öxullinn á að renna greiðlega úr ef frágangur á samsetningu er góður. Notið plasthamar og plastöxul (eða kopardór/öxul)til að reka driföxulinn úr til að skemma ekki öxulenda og lokin í valsinum. Ef annað hvort skemmist er ekki nokkur leið að setja saman aftur nema gert sé við öxulenda/lok með þjöl/í rennibekk.
Fyrir samsetningu þarf að athuga hvort legur og pakkdósir séu í lagi. Ef minnsti vafi leikur á því er öruggast að setja nýjar. Legurnar sem sjást í myndasyrpunni eru lokaðar og það má alveg hafa þær þannig en best er að opna leguna (taka lokið úr) þeim megin sem smurrásin er til að endurnýja feitina í legunni.
Til að skipta um legur og innri pakkdósirnar er best að taka leguhúsin úr vélinni og vinna verkið í skrúfstykki! Ekki verður farið frekar út í leguskipti hér.
Setjið saman í öfugri röð. Farið varlega, öxullinn á að renna auðveldlega í, gætið að því að stóri kíllinn á öxlinum hitti í kílfarið í lokinu og að öxulendinn hitti í leguna hinum megin áður en þið sláið á hann með hamri! Notið sleipiefni (mak) til að auðvelda samsetningu. Ekki gleyma að athuga hvort tennurnar í valsinum snúi rétt, það er leiðinlegt að þurfa að rífa allt í sundur aftur.
Þegar valsinn er kominn í þarf að stilla bilið á milli roðhnífs og roðvals. Setjið hnífinn í, gætið þess að hann liggi á tölunum og skrúfið efri stillibolta vel inn áður en þið fullherðið hnífinn.
Þegar hnífurinn er kominn í, þarf að athuga hvort hann sé í línu við valsinn áður en bilið er stillt. Örlítil skekkja getur verið í stellinu á þessum vélum (á líka við um aðra framleiðendur!) og því þarf að fínstilla hníf og vals saman svo að vélin vinni sem best.
Tölurnar eru lausar og auðvelt að skipta um þær, á M-800 línunni er hægt að skrúfa lítinn bolta (6.mm.) í tölurnar til að kippa þeim úr. Framleiðandi býður upp á margar þykktir af tölum, frá 8,8 mm.upp í 10 mm. með 0,1 mm. þykktarmun.
Þegar hnífurinn er í línu við valsinn má stilla bilið. Grunnstilling á öllum roðvélum er sú að hafa hnífinn eins nálægt valsinum og hægt er án þess að hann rekist í. Ath! Snúið vélinni í nokkra hringi til að vera viss um að hnífurinn snerti ekki valsinn. Hlustið svo alltaf á vélina þegar hún er komin í gang eftir viðgerð! Ef valsinn liggur utan í hnífnum þá skemmist hann strax og viðgerðin til einskis.
Byrjið á að slaka alveg öllum stilliboltum þannig að fölerarnir festist á milli vals og hnífs
Skrúfið svo öryggisboltann báðum megin inn, sitt á hvað í litlum þrepum þangað til fölerarnir losna. Þetta er nákvæmnisverk og skiptir gríðarlegu máli að bilið (0,05mm) verði því sem næst 100% rétt í grunnstillingu. Það á alltaf að vera hægt að slaka hnífnum í grunnstillingu aftur ef bilið er aukið með aðal stilliboltanum (efri bolti). Vinnslubil á að vera 0.05 til 0,1 mm. (í stórum ufsa má auka bilið í 0.15 mm.)
Þegar búið er að ná bilinu réttu skal herða rærnar á öryggisboltunum og stilla vinnslubilið í 0,05 - 0.10 mm. með aðal/efri stilliboltum og herða stopprærnar.
Ef það er erfitt/ómögulegt að ná bilinu réttu (mikill munur á milli hliða) þarf að athuga hvort fóðringar fyrir hnífaöxulinn séu orðnar slitnar. Nauðsynlegt er að aftengja stóru gormana til að greina slit í fóðringum. Stellið gæti einnig verið skakkt. Ef það næst ekki að jafna bilið verður að koma hnífnum eins nálægt valsi og hægt er (0,05 mm.) öðru megin og láta það ráða!
Eina leiðin til að ná skekkju úr stellinu á M-800 vélunum er að setja roðvélina á plan sem er 100% rétt. Best er að setja hana á plan á fræsivél eða (næstbest) ofan á sleðana/vangana á rennibekk. Losa alla bolta sem halda henni saman og herða þá aftur með lími.
Athugið gormþrýstinginn, hæfilegt bil á milli vafa er 1-1,5 mm.
Ef roðflettivélin fer í geymslu er best að losa upp á hnífnum og setja klút á milli hnífs og vals. Mælt er með því að úða verndarolíu yfir vals og hníf áður. Ekki gleyma að smyrja í legur og fóðringar.
Þrífið roðvélina svo vel fyrir notkun til að koma í veg fyrir að óhreinindi berist í matvæli!