Hausari
Hausari er ætlaður til vinnslu á öllum bolfiski og ýmsum örðum fisktegundum.
Hausarinn samanstendur af tæplega 1000 vélarhlutum, sem eru að stærstum hluta smíðaðir úr ryðfríu stáli en aðrir hlutar hans eru úr tæringarþolnu plasti.
Hausarinn er ýmist hannaður til að afhausa fiskinn fyrir flökun og þá fylgir klumbubeinið ekki með hausnum, en fyrir söltun þá fylgir klumbubeinið með haus.
Hausaður fiskur, þar sem klumban og eyruggi er látin fylgja bol og öll innyfli hafa verið fjarlægð
Hausaður fiskur, þar sem klumban er látin fylgja haus og öll innyfli hafa verið fjarlægð
Sjóhausarinn er í grunninn mjög einfaldur. Hann er byggður á grind úr stáli með færibandi, nokkrum reimum og stórum hringhníf. Flestir sjóhausarar eru einnig með búnað til að fjarlægja innyfli.
Hér má sjá myndbönd af hausurum í notkun út á sjó við raunverulegar aðstæður
Frumgerð þessara véla heitir Baader-424. Þessi vél var eingöngu notuð til að hausa karfa og grálúðu um borð í íslenskum frystitogurum fram undir aldamót þangað til menn áttuðu sig á að hægt væri að blóðga, slægja og hausa allan fisk í þessum vélum í einu handtaki.
Vinnsluferill
Sjóhausarar eru handmataðir. Ef gengið er út frá því að vélin sé í góðu lagi, rétt stillt og hnífurinn beittur, þá ræðst nýtingin nánast algjörlega af færni manneskjunnar sem matar hana.
Fiskurinn er dreginn af færibandi eða hálli stálplötu og hann lagður skáhallt í vélina, eyrugga er þrýst að uggastýringu sem hefur sömu miðju og hnífurinn. Miðjuna er hægt að stilla fyrir fisktegund og manninn sem matar í vélina.
Þegar hausinn er farinn af þá rennur búkurinn fram hjá gati þar sem innyflin eru sogin úr, eins og sést á myndbandinu. Lítið hjól með gúmmíblöðkum er innan við gatið til að hjálpa til við slógdráttinn.
Slógið fer svo eftir sverum barka og ofan í tank sem er yfirleitt sjálftæmandi. Ath! Ef tankurinn tæmir sig ekki sjálfur, verður að passa upp á að tæma hann áður en hann fyllist!
Öflug loftdæla er notuð til að búa til vaacum fyrir slógtankinn.
Dælan er oftast höfð í góðri fjarlægð, venjulega á næsta dekki fyrir ofan vinnsludekk. Loftdæluna þarf að taka í sundur og þrífa reglulega.(sjá kafla um vaacumdælu) Gott er að geta skolað dæluna að innan með vatni þegar vinnslu lýkur. Athugið að sugubúnaðurinn nær ekki að fullhreinsa kviðarhol í öllum fiskum afganginn verður að hreinsa með höndum.
Flestar nýrri gerðir þessara véla eru með stillanlegum halla á skurðarhnífnum til að auka nýtingu. Sumar gerðir eru með lasernema sem mæla fiskinn og stilla hnífahallann sjálfvirkt.
Nauðsynlegt er að smyrja vélina daglega ef hún er keyrð allan sólahringinn til að tryggja öruggan rekstur. Hnífurinn er brýndur eftir þörfum, þegar tennur hnífs eru rúmlega hálfslitnar verður að setja nýjan.
Ath! Snúið hnífnum alltaf eins í brýningarvélinni, best er að merkja aðra hliðina á nýjum hníf með tússi og snúa þeirri hlið td. alltaf út þegar hnífur er brýndur.
Viðhald og umsjón
Haldið vélinni hreinni, skolið af henni þegar vinnslu lýkur og eins þegar farið er í mat og kaffi. Fylgist vel með sugugati og barkanum sem fer í slóg-tankinn. Þetta getur stíflast og þá hættir vélin að taka innyflin frá. Skipta þarf um slóghjólið þegar það er orðið slitið/ónýtt.
Gætið þess að reimar séu hæfilega strekktar og fylgist með sliti í hjólum og leiðurum. Færiband á að vera jafnstrekkt báðum megin.
Eldri vélar eru með keðjukassa sem þarf að halda hreinum og smyrja reglulega
Kynnið ykkur leiðbeiningar framleiðanda