Brýning hnífa í fiskvinnsluvélum

Til að flökunarvélar, hausarar o.þ.h. tæki starfi eðlilega, þá er lykilatriði að skurðhnífar vélanna séu flugbeittir og ekki of slitnir.

Flugbeittir hnífar eru forsenda þess að ná góðum afurðum og það er ekki nóg að hnífarnir bíti vel, heldur verða þeir líka að bíta rétt! Nýr hnífur kemur tilbúinn til notkunar og eggin á honum er slípuð í fyrirfram ákveðnar gráður, þessar gráður skipta miklu máli varðandi flakanýtingu og skurðhæfni hnífsins. Þess vegna er mikilvægt að halda sem lengst í upphaflegar gráður skurðflatarins.

Það er góð ástæða fyrir því að framleiðendur fiskvinnsluvéla, láta leiðbeiningar um rétta hnífagráðu fylgja vélunum.

Brýning á flökunarhnífum


Þó að rétt gráða á hnífsegginni sé mjög mikilvæg, þá skiptir enn meira máli að hnífurinn flugbíti. Þess vegna verða allir umsjónarmenn fiskvinnsluvéla á sama vinnustað/skipi að nota nákvæmlega sömu aðferð við að brýna hnífana!

Óþarfa hnífaslit á sér stað, þegar starfsmenn nota sitt hvora aðferðina til að brýna sama hnífinn. Einnig tekur brýningin mun lengri tíma því að oft þarf að slípa niður gráðu á hnífnum sem myndaðist þegar brýningarvélin var öðruvísi stillt. Hnífarnir eru úr mjög hörðu stáli sem tekur langan tíma að vinna niður.

Brýningarvélin þarf að vera stillt fyrir þá hnífa sem á að slípa hverju sinni og steinarnir verða að vera í lagi.

Ef brýnið er vanstillt, þá er hætta á að eggin tapi strax upprunalegu lagi sínu við brýningu.

Sjá kafla um grunnstillingu hnífabrýnis hjá framleiðendum.

Athugið með stilliplötu hvort miðjan sé rétt

Setjið rétta tölu (miðjustýringu) í hnífarónna og festið hnífinn í brýninu

Þessi mynd sýnir miðju á Curio brýni

Látið hnífinn síga ofan í steinana og athugið hvar hann lendir. Efri og neðri flökunarhnífar eru yfirleitt þvingaðir örlítið (ca. 2 mm.) frá miðju til vinstri í brýningu til að halda upprunalegum skurðfleti hnífsins lengur.


Fráskurðarhnífar eru þvingaðir örlítið til hægri frá miðju til að stækka flauið að innanverðu og minnka líkur á brjóskkúlum í flaki.

Original Baader fráskurðarhnífa á eingöngu að brýna að innanverðu!



Til eru hnífar sem eru sérhannaðir (bara brýndir öðru megin) fyrir fráskurð og margir baadermenn nota ekkert annað sem fráskurðarhnífa, það er samt í góðu lagi að nota slitna flökunarhnífa í staðinn og stækka gráðuna á þeim að innan

Baader-61 er með merkingar fyrir miðjustillingu á hnífadrifinu að aftanverðu, þessi merki eru ekki bráðnauðsynleg en mjög gagnleg.

Athugið að núllið á vélinni getur verið á vitlausum stað m/v hnífinn og því verður hnífurinn sjálfur alltaf að ráða stillingunni!


Þegar búið er að stilla miðjuna verður að stilla hæðina. Byrjið á að stilla hnífinn þannig að hann sé mjög nálægt, en snerti ekki steinana.

Setjið vatn í bakkann og nokkra dropa af uppþvottalegi, sápan bætir kælinguna.

Munið að setja bakkann niður eftir notkun til að skemma ekki steinana.

Setjið í gang og slakið hnífnum á milli steinana þangað til að  þeir grípa.

Látið hnífinn aldrei (hoppa) liggja af fullum þunga ofan í steinunum, það skemmir steinana, hnífinn og brýningarvélina!


Hvenær er hnífurinn orðinn beittur?

Besta aðferðin til að sjá hvort hnífurinn sé orðinn beittur er að nota ljós (helst með stækkunargleri) til að lýsa á bláeggina í brýningu, Ef hnífurinn bítur illa, sést glampa á eggina, þegar glampinn er horfinn þá er hnífurinn orðinn flugbeittur. Með þessari aðferð þarf aldrei að snerta hnífinn með fingurnöglum eða prufuskera tuskur og bréf.

Mælt er með því að fylgjast með brýningunni allan tímann, en ef það er ekki hægt verður að nota tímaliða til að slökkva á vélinni sjálfkrafa. Tvær til þrjár mínútur eiga að duga til að slípa 200 mm. hníf. Nýrri vélar eins og td. Curio brýnið er með innbyggðum tímaliða og hraðastillingu.

 

Gangið alltaf frá hnífunum í hlífðartösku og/eða geymið á öruggum stað þegar brýningu er lokið!

Kynnið ykkur leiðbeiningar framleiðanda