Allar bolfisk- flökunarvélar eru með tímastilltan vinnuhring, þ.e. hreyfingar á hnífum, örmum og öðrum búnaði sem eru fyrirfram ákveðnar. Ef þessi búnaður er ekki réttur á tíma þá verða afurðirnar úr vélinni gallaðar og/eða vélin óstarfhæf með öllu.
Hvað er tímastilling?
Flestar vélar sem framkvæma tiltekna vinnu á tilteknum tíma byggja á hugtaki sem kallast vinnuhringur. Til dæmis er einn vinnuhringur sprengihreyfils algengustu bílvéla, tveir 360° hringir sem eru endurteknir í sífellu á meðan vélin snýst. Á meðan mótorinn fer þessa tvo hringi hreyfast margir hlutir í honum samtímis í fullkominni samvinnu við hvorn annan, þessi hreyfing er fyrirfram ákveðin og nákvæmlega tímastillt. Ef tímastillingin ruglast, jafnvel bara örlítið, þá fer mótorinn að ganga illa eða stöðvast alveg (sem er algengast).
Sama prinsipp á við um flökunarvél, ef hún er vitlaus á tíma þá sker hún fiskinn ekki rétt og flakagallar verða mjög áberandi. Ef tímastilling flökunarvélar er of langt frá vikmörkum getur vélin sjálf orðið fyrir töluverðum skemmdum.
Vinnuhringur mekanískra flökunarvéla virkar þannig að vélin snýr 2 eða fleiri kambásum í einn 360°hring fyrir hvern fisk/söðul sem fer í gegn um vélina. Kambásarnir hreyfa efri hnífa, fráskurðarhnífa og annan búnað í rétta stöðu fyrir skurð. Tímastillingin sem þessi kafli fjallar um miðast við flökunarvélar sem einungis hafa 2 kambása, einn fyrir efri hnífa og annan fyrir fráskurðarhnífa (B-189 & M-700). Vélar frá Curio og aðrar gerðir Baadervéla eru t.d. með nokkra tímastillta kambása í viðbót fyrir aðrar hreyfingar. Opnun innstýringa og sköfubretta á B-189 og M-700 er sjálfkrafa tímastillt og eingöngu hægt að stilla stærð hreyfingar (sjá kafla um innstýringar/sköfuhnífa)
Útilokað er að fara yfir tímastillingar á öllum gerðum flökunarvéla í svona stuttu námsefni og hér er eindregið mælt með því að sækja sérstök námskeið í hverri gerð fyrir sig hjá framleiðanda/innflytjendum vélanna og lúslesa allar leiðbeiningar sem fylgja hverri vél
Allar tímastillingar á mekanískum og tölvustýrðum flökunarvélum með söðlum eru miðaðar út frá stöðu söðulsins.
Tímastilling á tölvustýrðri eða mekanískri flökunarvél, hver er munurinn?
Þegar söðull er kvarðaður við núllpunkt á tölvustýrðri vél (td. lasergeisla) þá veit vélin/forritið nákvæmlega hvar söðullinn er staddur og hreyfir hnífastykki og annan búnað í samræmi við það. Tölvustýrðar vélar eru forritaðar til að hreyfa skurðarhnífa í ákveðinni kúrfu miðað við gefna fisktegund. Stærðarmæling á fiskinum segir forritinu hversu mikil hreyfingin á að vera hverju sinni. Það er nauðsynlegt að kvarða bak og fráskurðarhnífa við söðla reglulega til að forritið viti hvar þeir eru staddir. Stærðarmæling á nýju vélunum frá Vélfag er framkvæmd af mjög nákvæmum lasergeisla sem nemur fjarlægð og stöðu, geislinn lýsir ofan á bak fisksins meðan hann rennur í gegn og tölvan segir skrefamótorum (servo-mótorum) fyrir verkum í samræmi við mælinguna.
Það er hægt að breyta skurðarkúrfu tölvustýrðra véla frá Vélfag eftir hentugleik á tölvuskjá vélanna. Til dæmis er hægt að búa til eigin prógrömm sem gætu heitið „stórþorskur, halamið“ eða „smáufsi“ og geyma þau í minni til notkunar næst þegar svipaður fiskur veiðist/kemur að landi.
Kostir tölvustýringar
Tölvustýring býður upp á meiri sveigjanleika við stillingar, það er hægt að breyta öllum helstu tíma og skurðstillingum með fingurgómi á snertiskjá á augabragði. Tölvustýrð vél er nákvæmari og hraðvirkari í hreyfingu hnífastykkja en sú mekaníska.
Gallar tölvustýringar.
Tölvustýrðar vélar eru að vissu leyti flóknari en þær mekanísku og krefjast mjög sérhæfðrar kunnáttu í rafstýringum/forritun ef eitthvað bilar alvarlega. Smá hiksti í hugbúnaði, bilaðir nemar og raki getur gert þær óstarfhæfar.
Kostir mekanískrar stýringar.
Mekanísk stýring þolir meira slark eins og bleytu, titring o.þ.h. Ef eitthvað bilar þá getur góður vélvirki oftast bjargað málunum án utanaðkomandi aðstoðar.
Gallar mekanískrar stýringar.
Fleiri hreyfanlegir hlutir sem slitna, ónákvæmari vinna og takmarkað svigrúm til stillinga. Auk þess er töluvert fyrirtæki að breyta stillingum á mekanískri vél og því er yfirleitt farinn meðalvegur sem hentar ekki í öllum tilfellum.
Tímastilling á Baader-189 & M-700
Hér verður farið yfir rétt verklag við tímastillingu á mekanískum Baader-189 og Vélfag-M-700. Þessar vélar hafa verið nánast einráðar í sjóvinnslu á Íslandi vegna hversu fjölhæfar þær eru varðandi stærð og gerð fiskjar sem hægt er að flaka í þeim. Auk breiðs vinnusviðs er einn aðalkostur þessara véla hvað þær eru einfaldar í stillingum og viðhaldi, sem þýðir mikið rekstraöryggi.
Baader-189 er ein best heppnaða bolfisk-flökunarvél allra tíma sökum áræðanleika, einfaldleika, vinnslugetu og afurðagæða. Ennþá eru í gangi 50 ára gömul eintök af þessari vél í fullu fjöri, bæði til sjós og lands. Flestar seinni tíma bolfiskvélar sem hafa náð vinsældum, eru í grunnatriðum byggðar á B-189 og því er hún, ásamt íslenskri endurgerð hennar, M-700 frá Vélfag aðallega notaðar við þessa kennslu. Sá/sú sem skilur hvernig þessar vélar vinna, getur yfirfært þekkingu sína á allar aðrar flökunarvélar sem eru í notkun, einnig þær tölvustýrðu.
Verkferill tímastillingar efri hnífa í mekanískri flökunarvél M-700 og B-189
ATH! Gætið að því að enginn sé nálægt vélinni á meðan vinna fer fram, til að fyrirbyggja slys!
Keyrið söðulinn undir mæliskó
Mælið bilið frá söðli upp í botn á mæliskó, bilið á að vera 95– 100 mm. (mikilvægt!)
Minna bil = mælir fiskinn stærri/ armur hreyfist meira/hærri bakhnífalyfta
Meira bil = mælir fiskinn minni/armur hreyfist minna/lægri bakhnífalyfta
2.Sannreynið að tímaspjót lendi í fyrstu tönn á tannkambi
3. Athugið hvort mælingin virki. Boltarnir sem tengja mælislána við öxulinn í gegn um vélarhúsið eiga það til að losna, þessa bolta þarf að athuga reglulega, ef þeir losna þá virkar stærðarmælingin ekki og flakagallar verða áberandi!
4. Snúið vélinni þannig að kúrfan fyrir lyftingu e-hnífa snúi upp
5. Ýtið tímaspjótinu í fyrstu tönn með höndunum.
6. Haldið spjótinu í 1stu tönn og stillið bilið á milli rúllunnar og kambsins (þar sem hann er minnstur) í 20 mm. (hægt er að hafa bilið frá 18 mm og upp í 26 mm ) Það er gert með því að lengja eða stytta spjótið. Lítið bil = mikil lyfting e- hnífa /mikið bil=lítil lyfting e - hnífa
7. Snúið svo vélinni þangað til ytri kúrfan er búin að lyfta tímaspjótinu þannig að það snerti 1 tönn í tannkambi.
8. Mælið fjarlægðina frá söðulnefi að fráskurðaplasti, bilið á að vera 320 mm. Það er hægt að hafa bilið frá 315 mm. upp í 325 mm. Meira bil= vélin lyftir hnífum fyrr. Minna bil= vélin lyftir hnífum seinna
9. Snúið vélinni á næsta söðul og endurtakið mælinguna