Miðjustilling vélar
Rétt miðja flökunarvélar er algjört aðalatriði og grunnur allra annarra stillinga. Vélarnar koma að sjálfsögðu stilltar frá framleiðanda þegar þær eru nýjar en það aflagast með tímanum vegna slits í fóðringum, leiðurum, brautum o.þ.h.
Ef flökunarvél er ekki rétt miðjustillt, verður hún aldrei til friðs!
Miðjustilling flökunarvéla er tímafrekt nákvæmnisverk og ekki er ætlast til að umsjónarmenn fiskvinnsluvéla sjái um slíkt nema brýna nauðsyn beri til, en þeir verða að geta áttað sig á hvenær þarf að kalla til viðgerðarmann.
Ef um sjóvélar er að ræða skal vinna verkið í landlegu og utan hefðbundins vinnutíma í landi.
Miðjustilling B-189 (á við um flestar söðlavélar)
Áður en vinna við miðjustillingu getur hafist þarf að fjarlægja alla söðla, færibönd, fráskurðarhnífa, efri og neðri beinastýringar, sköfuhnífa og sköfubretti. Auk þess þarf að fjarlægja allt framan við flökunarhnífa, innsetningarborð og leiðarana undir því, innstýringarklöppur og mæliskó. Nóg er að gleikka neðri sporðstýringu
Venjan er að nota aftari söðlastýringu sem viðmið og ákveða að það sé miðja vélarinnar. Það verður að gæta þess að miðja söðlastýringar passi nokkurn veginn við miðju fráskurðarhnífaboga (> 2 mm <) Það er lítið fríhlaup til að miðja fráskurðarhnífa eftir á svo þeir nái að fjaðra jafn mikið í báðar áttir. Mikilvægt er að leiðarar í stýringunni séu nýjir eða lítið slitnir
Á eldri vélum frá Baader eru notuð sérstök millilegg til að stilla söðulstýringarnar réttar en á nýrri vélum (td. Vélfag) er aftari söðlamiðja vélarinnar stillanleg á skrúfgangi. Það er líka hægt að færa söðulstýringarnar með því að losa boltana sem halda búkkunum föstum við stellið. Það er smá fríhlaup í boltagötunum ef stýripinnar eru fjarlægðir
Millibil aftari söðulstýringar fyrir 5 mm söðul skal hvergi vera minna en 5,2 mm og ekki meira en 5,5 mm. Sannprófið með því að setja nýjan lausan söðul í gegn um alla stýringuna með höndunum, hann á að renna greiðlega í gegn alls staðar.
Þegar aftari söðulstýring er orðin góð fyrir miðju vélar þá eru nýjir neðri hnífar settir í og miðjustilltir út frá söðulstýringunni. Best er að miðja hnífana út frá 5 mm stýrijárni sem passar í stýringuna (Það fylgir sérstök stilliplata með sumum vélum)
Þegar aftari söðulstýring er orðin góð fyrir miðju vélar þá eru nýjir neðri hnífar settir í og miðjustilltir út frá söðulstýringunni. Best er að miðja hnífana út frá 5 mm stýrijárni sem passar í stýringuna (Það fylgir sérstök stilliplata með sumum vélum)
Setjið hnífana fasta á klemmustykkjum með 6,0 > 6, 3 mm. bili á milli hnífanna. Mikilvægt er að hnífarnir lendi nákvæmlega í miðjunni. Ef hnífafóðringar eru slitnar verður að skipta um þær áður. (sjá leiðbeiningar um hnífafóðringaskipti)
Þegar neðri flökunarhnífar eru orðnir réttir þarf að stilla fremri söðulstýringar. Það er gert með því að stinga beinu stýrijárni í gegn um hnífana og inn í aftari stýringarnar. Fremri stýringarnar verða að vera eins þröngar og hægt er án þess að söðullinn festist. Þær verða að hylja báða hnífa alveg og jafnmikið báðum megin. Nauðsynlegt er að líta á fremri söðlastýringu reglulega því að hún afstillist og gleikkar með tímanum. Ef söðullinn stýrist ekki rétt í gegn, getur hann rekist í hnífana og gert þá bitlausa eða brotið þá. Hnífarnir mega aldrei snerta söðulinn!
Athugið að lokum hvort söðlakeðjur (og þar með söðullinn sjálfur) séu á réttum stað í vélinni. Auðveldast er að færa söðla-keðjuhjól/öxla til hliðar með því að losa á búkkalegum. Keðjurnar verða að vera hæfilega strekktar (með ca 10- 15. mm fríhlaupi) og jafn mikið báðum megin.