Umsjónarmaður fiskvinnsluvéla


Baadermaður óskast?

Þessa auglýsingu hafa margir séð eða heyrt í gegn um tíðina, en fæstir vitað um hvaða starf er að ræða.  Baadermaður... hvað er nú það? Hvaða dularfulla starfsgrein er þetta?

Starfsheitið Baadermaður er enn í notkun en nú eru fyrirtæki í sjávarútvegi farin að auglýsa oftar eftir umsjónarmönnum fiskvinnsluvéla. Ástæða starfsheitisins Baadermaður er sú, að á árum áður var yfirgnæfandi meirihluti allra fiskvinnsluvéla sem til voru á Íslandi af gerðinni Baader. Baader-vélar eru ættaðar frá Þýskalandi og er fyrirtækið heimsfrumkvöðull í framleiðslu og þróun á vélbúnaði fyrir fiskvinnslu. Fyrirtækið og vörumerkið Baader, sem var stofnað árið 1919 hefur verið og er enn, eitt af stærstu fyrirtækjum heims í þessum geira.

 Í dag eru komin til sögunnar nokkur frábær íslensk fyrirtæki og frumkvöðlar sem þróa og framleiða hágæða fiskvinnsluvélar til notkunar hér heima og erlendis. Íslensku fiskvélarnar hafa reynst mjög vel og hafa smám saman aukið hlutdeild sína á markaðinum.  Stærstu íslensku vélaframleiðendurnir: Curio (Marel) og Vélfag, auk Baader-umboðsins á Íslandi leggja til grunninn að öllum tæknilegum upplýsingum sem verða notaðar í bókinni.  Í námsefninu verður ekki farið í neinn samanburð á milli framleiðanda, enda misjafnt hvaða búnaður hentar hverjum og einum fiskverkanda eða útgerð.

 Í þessari samtekt verður varpað ljósi á hvað Umsjónarmaður fiskvinnsluvéla gerir, hvaða skyldum hann gegnir og hvaða kunnáttu þarf til starfans. Bókin er rafbók og reynt verður eftir fremsta megni að skýra út fyrir nemendum á einfaldan hátt með stuttum texta, myndum og myndskeiðum, hvernig algengustu fiskvinnsluvélar sem nú eru í notkun, virka í grunninn. Hér er um að ræða: Hausar fyrir sjó og landvinnslu, bolfisk-flökunarvélar, roðflettivélar og hnífabrýni.

 Þessi samantekt er ætluð sem kennslugagn í vinnslutækniáfanga Fisktækniskóla Íslands og til nota við sérnámskeið á vegum skólans. Hún er byggð á áratuga reynslu Baadermanna til sjós og lands og unnin í samstarfi við framleiðendur/innflytjendur vélanna. Samant er rafræn og notuð verður nýjasta tækni við miðlun upplýsinga í bókinni. Markmið bókarinnar er að auka skilning og færni þeirra, sem starfa við fiskvélar svo þeir eigi auðveldara með að leysa algeng vandamál og geti nýtt sér leiðbeiningar sem fylgja hverri vél. Námsefnið ætti einnig að gagnast flestum er starfa við vélvædda fiskvinnslu.

 Eingöngu verður farið yfir stillingar á algengustu gerðum fiskvinnsluvéla og byggt á einföldum og þrautreyndum gerðum sem eru grunnur hinna nýrri. Farið verður yfir algengar ástæður vandamála sem upp geta komið og úrlausn þeirra. Eins verður fjallað um hráefni, hnífabrýningu, öryggismál og umgengni, nýtingu, afurðir, afurðagalla, fyrirbyggjandi viðhald o.þ.h.

 Hverjir geta orðið umsjónarmenn fiskvinnsluvéla, hverjar eru kröfurnar?

 Konur jafnt sem karlar geta orðið hæfir og eftirsóttir starfsmenn, ef viðkomandi hefur mikinn áhuga á véltæknibúnaði og er sæmilega verklaginn.

 Þessar vélar eru nákvæmnissmíð og mikið hugvit liggur að baki hverrar og einnar. Lítið má út af bera til að valda afurðagöllum eða stöðvun vinnslu. Því er mikilvægt að þeir sem bera ábyrgð á daglegum rekstri þessara tækja, viti hvernig á að bregðast við.

 Gangi ykkur vel 😊

 Ath!  

Fiskvinnsluvélar eru oft töluvert flóknar að uppbyggingu og því er ætlast til að nemendur/starfsmenn sæki sértæk námskeið fyrir hverja vél hjá framleiðendum/umboði þegar slíkt á við!